Viðskipti innlent

Jón Karl Ólafsson: Ætlum að stækka flugflotann í 10-12 vélar

Jón Karl Ólafsson forstjóri Primera Air segir að félagið hyggist stækka flugflota sinn upp í 10-12 vélar á næstu 3 til 4 árum. „Þetta teljum við ákjósanlega stærð á flota okkar með tilliti til hagkvæmni," segir Jón Karl í samtali við Fréttastofu.

Eins og fram kemur í annarri frétt hér á síðunni gekk Primera Air nýlega frá samningi við ST Aerospace um viðhald og þjónustu á vélum sínum til næstu átta ára. Primera Air hefur átt samvinnu við ST Aerospace síðan árið 2007 og er Jón Karl mjög ánægður með samskiptin.

„Þótt ST Aerospace sé skráð í Singapore eru þeir með stærstu viðhalds- og þjónustumiðstöðina á Kastrupflugvelli í Kaupmannahöfn og raunar staðsettir þar við hliðina á okkur," segir Jón Karl.

Fram kemur í máli Jón Karls að góður gangur sé nú í starfsemi Primera Air þrátt fyrir efnahagserfiðleikana á Íslandi. „Við erum aðallega á markaði á hinum Norðurlöndunum og Írlandi sem ekki hafa farið eins illa út úr fjármálakreppunni og Ísland," segir hann.

Sem stendur rekur Primera Air sex flugvélar en tvær þeirra bættust í flota félagsins í upphafi ársins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×