Handbolti

Ólafur markahæstur í úrslitum Meistaradeildarinnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson skýtur hér að marki Kiel.
Ólafur Stefánsson skýtur hér að marki Kiel. Nordic Photos / AFP
Ólafur Stefánsson hefur skorað flest mörk í sögu úrslitaleikja Meistaradeilda Evrópu og hefur þar með skráð nafn sitt enn einu sinni á spjöld handboltasögunnar.

Ólafur skoraði fjórtán mörk í úrslitaleikjunum tveimur gegn Kiel en hann leikur með Ciudad Real á Spáni. Það var í fjórða sinn sem Ólafur verður Evrópumeistari.

Samtals hefur hann skorað 68 mörk í úrslitaleikjunum sínum í Meistaradeildinni. Þar að auki hefur hann verið markahæstur sinna manna í öll þau fjögur skipti sem hann hefur orðið meistari.

Þegar Ólafur skoraði tólf mörk í síðari úrslitaleik Ciudad Real og Kiel í fyrra jafnaði hann met Spánverjans Enric Masip sem varð fyrstur til að skora meira en 50 mörk í úrslitaviðureignum Meistaradeildarinnar. Þeim áfanga náði hann árið 2001 en mörkin urðu alls 54.

Árið 2002 bættist svo Nenad Perunicic í hóp þeirra sem hafa skorað meira en 50 mörk í úrslitaleikjunum og Ólafur varð svo þriðji maðurinn til að ná þeim áfanga.

Einn leikmaður til viðbótar hefur bæst í þennan hóp en það er Frakkinn Nikola Karabatic sem fór nýverið frá Kiel til Montpellier. Hann hefur samtals skorað 60 mörk í úrslitaleikjum Meistaradeildarinnar.

Markahæstu leikmenninnirnir í úrslitum Meistaradeildarinnar:

1. Ólafur Stefánsson 68 mörk

2. Nikola Karabatic 60

3. Enric Masip 54

4. Nenad Perunicic 51

5. Rafael Guijosa 44

6. Siarhei Rutenka 41

7. Antonio Ortega 39

8. Jonas Källmann 37

9.-10. Mirza Dzomba 36

9.-10. Vid Kavticnik 36




Fleiri fréttir

Sjá meira


×