Viðskipti innlent

Fasteignaverð á Vestfjörðum 70% lægra en í höfuðborginni

Fasteignaverð mælt sem meðal staðgreiðsluverð á fermetra er að meðaltali 70% lægra á Vestfjörðum heldur en á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt gögnum sem Fasteignakrá Íslands hefur birt um íbúðarverð á síðasta ári.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þegar meðalkaupverð á fermetra á tímabilinu október 2008 og til og með mars 2009 er skoðað kemur í ljóst að kaupendur greiddu að meðaltali 255 þúsund krónur fyrir fermetra á höfuðborgarsvæðinu en á sama tíma var greitt 71 þúsund krónur fyrir fermetrann á Vestfjörðum.

Ekki þarf að koma á óvart að langflestir kaupsamningar sem gerðir voru á þessu tímabili voru gerðir um húsnæði á höfuðborgarsvæðinu eða samtals 725 samningar á þessu sex mánaða tímabili en á sama tíma voru gerðir 36 samningar um húsnæði á Vestfjörðum.

Taka ber þessum tölum með þeim fyrirvara að miklu meiri dýpt og verðmyndun er á fasteignamarkaðinum á höfuðborgarsvæðinu. Samanburður af þessu tagi er þó engu að síður áhugaverður.

Þá sýna tölur Fasteignaskrár Íslands um fasteignaverð íbúðahúsnæðis eftir landshlutum að utan höfuðborgarsvæðisins hafi fasteignaverð verið hæst á Suðurnesjum en þar var meðal kaupverð á fermetra 170 þúsund krónur. Næst hæst er íbúðaverð á landsbyggðinni á Vesturlandi þar sem það er 163 þúsund krónur á fermetrann og þar næst kemur íbúðaverð á Suðurlandi en þar kostaði fermetrinn á síðasta ári 154 þúsund krónur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×