Viðskipti innlent

Launahækkanir opinberra meiri en annara síðustu 15 mánuði

Síðustu fimm ársfjórðunga hafa launahækkanir opinberra starfsmanna verið meiri en starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans þar sem fjallað er um þróun launavísitölunnar en þær upplýsingar birti Hagstofan í gær.

Í Hagsjánni segir að á einu ári hefur launavísitalan hækkað um 2,1%. Laun opinberra starfsmanna hafa hækkað umtalsvert meira en laun á almennum vinnumarkaði síðasta árið, eða um 4,9% á móti 0,8%.

Vöxtur launavísitölunnar hefur ekki verið jafn hægur síðan á árabilinu 1992-1994 eða síðustu 15 árin ef frá er skilinn fyrsti ársfjórðungur 1997

„Í því ástandi sem nú varir má því segja að launahækkanir opinberra starfsmanna dragi nú vagninn hvað varðar hækkun launavísitölunnar en opinberi geirinn vegur um 30% af vísitölunni," segir í Hagsjánni.

Þegar horft er á sundurliðun vísitölunnar eftir starfsstétt sést að laun verkafólks og skrifstofufólks hafa hækkað mest (4,3% og 4,1%) síðasta árið af þeim starfstéttum sem Hagstofan sundurliðar en laun stjórnenda og sérfræðinga lækkað mest á sama tímabili eða um 4,1% og 2,5%.

„Leiða má líkur að því að stjórnendur og sérfræðingar í fjármála- og byggingageiranum hafi þar með orðið fyrir mestum launalækkunum síðasta árið á meðan verkafólk í iðnaði hafið notið mestra launahækkana, þó svo að það sé ekki mælikvarði á áhrif niðursveiflunnar á starfsstéttir. Því atvinnuleysi þeirra sem einungis hafa lokið grunnskólanámi er meira en þeirra sem lokið hafa meira námi og svipaða sögu má segja um atvinnuástandið í iðnaði, verslun og mannvirkjagerð," segir í Hagsjánni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×