Viðskipti innlent

Sókn í vaxtamunaviðskipti gæti aflétt gjaldeyrishöftunum

Sókn alþjóðlegra fjárfesta í vaxtamunaviðskipti á ný ásamt því að nokkuð miðar í endurreisn fjármálakerfisins eru þættir sem opna fyrir möguleikann á afnámi gjaldeyrishaftanna hér á landi.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þróunin undanfarið á erlendum fjármálamörkuðum hafi því verið jákvæð og vísbending um að skilyrði fyrir flot krónunnar kunni að skapast á næstu mánuðum.

Hinir lágu vextir á Vesturlöndunum hafa leitt til þess ásóknar fjárfesta í hávaxtamyntir í t.d. í Brasilíu, Nýja Sjálandi og Ástralíu. Íslenska krónan var og er á meðal hávaxtamyntanna. Stýrivextir Seðlabankans eru 15,5% og afar háir í samanburði við þá vexti sem finnast nú í öðrum iðnríkjum, og reyndar einnig í samanburði við það sem finnst í nýmarkaðsríkjunum. Gjaldeyrishöft og hrun bankanna í fyrrahaust dæmdi krónuna hins vegar nær úr leik í vaxtamunaviðskiptum a.m.k. tímabundið.

Hagtölur hafa verið að koma fram undanfarið sem benda til þess að það sé að draga úr samdrættinum á heimsvísu. Sé hér um raunverulega breytingu að ræða felst í því að áhættufælni er á undanhaldi og að ekki sé langt að bíða þess að alheimshagkerfið finni sér viðspyrnu í botninum og hagvöxtur glæðist á ný.

Áhættan er hins vegar sú að hér sé ekki um annað að ræða en flökt í hagtölum og skammtímabjartsýni sem á sér lítinn raunverulegan grundvöll og að hagkerfi heimsins haldi áfram að dragast hratt saman á næstunni.

Það myndi hvetja fjárfesta til að fjárfesta aftur í myntum sem mest viðskipti eru með, þ.e. dollara, jeni og evru, og þvinga seðlabanka hávaxtamynta að lækka vexti til að hvetja hagkerfi þeirra. Hávaxtamyntir eiga undir högg að sækja í slíku umhverfi og erfitt verður að fleyta krónunni við slík skilyrði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×