Viðskipti innlent

Skuldatryggingarálag ríkisins lækkar að nýju

Eftir töluverða hækkun skuldatryggingarálags íslenska ríkisins í nóvember hefur það lækkað á undanförnum dögum. Hækkunin var mikil í síðustu viku og stóð áhættuálagið til fimm ára í 427 punktum síðastliðinn föstudag en hefur síðan lækkað um 35 punkta og stendur nú í 391 punktum.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að rekja megi þessa sveiflu síðustu daga til frétta frá Dubai en eins og kunnugt er var tilkynnt um mikla erfiðleika eignarhaldsfélags sem er í ábyrgð furstadæmisins í síðustu viku en margir bankar eiga mikla hagsmuni að gæta vegna lána til eignarhaldsfélagsins.

Þetta leiddi m.a. til þess að skuldatryggingarálag Dubai rauk upp um 334 punkta á nokkrum dögum, eða úr 313 punktum í 649 punkta, en hefur lækkað aftur og stendur nú í 433 punktum.



Þessi þróun áhættuálags íslenska ríkisins undanfarna daga er því ekkert einsdæmi. Þegar litið er yfir þróun skuldatryggingarálags nokkurra evrópuríkja má sjá að þeim mun hærra sem það er, þeim mun næmari er það fyrir titringi á mörkuðum sem þessum. Ætti það ekkert að koma á óvart.

Í síðustu viku þegar áhættuálag flestra ríkja hækkaði var munurinn á hæsta og lægsta gildi áhættuálagsins um 55 punktar á Lettland, 45 punktar á Ísland, 25 punktar á Grikkland og 4 punktar á Írland og er þessi röðun í samræmi við skuldartryggingarálag ríkjanna.

Einnig er þetta í samræmi við lánshæfiseinkunnir ríkjanna sem kemur augljóslega ekki heldur á óvart enda er það annar mælikvarði á áhættu skuldara. Hjá matsfyrirtækinu Fitch er Írland (AA+) því með hæstu lánshæfiseinkunnina en Lettland (BB+) með þá lægstu fyrir erlendar langtímaskuldbindingar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×