Viðskipti innlent

Nýr forstjóri ráðinn til MP Banka

Gunnar Karl Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs og stjórnarformaður Tryggingamiðstöðvarinnar hefur verið ráðinn forstjóri MP Banka.

Í frétt á vefsíðu MP Banka segir að Gunnar Karl er fæddur árið 1959 og lauk hagfræðiprófi frá Ohio University árið 1985. Gunnar hefur lengst af starfað hjá Skeljungi hf. aðallega við fjármálastjórnun og áhættustýringu. Hann varð aðstoðarforstjóri Skeljungs árið 2000 og síðan forstjóri árið 2003.

Gunnar Karl hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa í íslensku atvinnulífi og er nú m.a. stjórnarmaður í Samtökum atvinnulífsins og Samtökum verslunar og þjónustu. MP Banki stendur nú á þeim tímamótum að vera orðinn alhliða viðskiptabanki. Það er mat stjórnar MP Banka að reynsla Gunnars og þekking á sviði stjórnunar og stefnumótunar muni nýtast honum afar vel til að leiða uppbyggingu og sókn bankans.

Stjórn MP Banka þakkar Styrmi Þór Bragasyni, fráfarandi forstjóra, vel unnin störf í þágu bankans, ekki síst í aðdraganda og kjölfars bankahrunsins í haust. Styrmir mun um 12 mánaða skeið starfa að verkefnum tengdum fjárfestingabankahluta MP Banka, sitja í stjórnum nokkurra félaga fyrir bankann og sinna verkefnum erlendis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×