Enski boltinn

Guðjón: Það þýðir ekkert að berja þá

Guðjón vill sjá meira frá sínum mönnum
Guðjón vill sjá meira frá sínum mönnum Nordic Photos/Getty Images

Guðjón Þórðarson og lærisveinar hans í Crewe urðu að gera sér að góðu markalaust jafntefli á heimavelli gegn Hartlepool í ensku C-deildinni í dag.

Bæði lið eru í bullandi fallbaráttu og því var hart barist í leiknum. Gylfi Sigurðsson fékk reyndar upplagt tækifæri til að tryggja Crewe dýrmæt stig í leiknum, en hann lét varnarmanninn Sam Collins verja frá sér skotið.

Mark var dæmt af Crewe í leiknum vegna rangstöðu, en gestirnir ógnuðu lítið og voru sáttir við stigið.

Crewe er í 20. sæti deildarinnar, þremur stigum frá fallsvæðinu.

"Við fengum það sem við áttum skilið úr þessum leik. Mér fannst við ekki nógu grimmir fyrir framan mark þeirra og miðverðir þeirra áttu of náðugan dag að mínu mati," sagði Guðjón Þórðarson í viðtali á heimasíðu Crewe.

"Það er áhyggjuefni að við skulum ekki vera að skora mörk. Menn leggja sig fram, en við náum bara ekki að skora. Það er mitt verkefni að rífa piltana upp og ég er búinn að segja þeim að ég hafi ekki verið nógu ánægður með margt hjá þeim í dag. Það þýðir ekkert að lemja þá, en þeir verða að skilja að þeir verða að gera betur en í dag ef þeir ætla sér að halda sér í þessari deild," sagði Guðjón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×