Viðskipti innlent

Berlingske: Íslenskir auðmenn í stríði fyrir opnum tjöldum

„Beinagrindurnar halda áfram að rúlla út úr skápnum eftir bankahrunið á Íslandi. Nú nota auðmennirnir eigin fjölmiðla í baráttunni um eftirköstin. Fyrrum eigandi Magasin heldur því fram að hafa verið hótað af drukknum blaðamanni og sætt fjárkúgun af lögfræðingi."

Þannig hefst grein í danska blaðinu Berlingske Tidende í dag undir fyrirsögninni: Íslenskir auðmenn í opnu stríði. Þar segir að hneykslin haldi áfram að koma í ljós eftir efnahagshrun landsins.

„Bara á síðustu tveimur dögum hafa verið í boði ýmsar fréttir um ólögleg milljarðalán frá Landsbankanum til eigenda sinna, um að yfirmenn í bönkunum Glitnir og Straumur hafi flutt milljarða út úr landinu skömmu fyrir bankahrunið og að fyrrum Magasin-eigandinn Jón Ásgeir hafi yfirfært skíðaskála upp á 36 milljónir evra frá gjaldþrota Baugi yfir í einkafélag sitt," segir í greininni.

„Allir fjölmiðlar standa við fréttir sínar en forsmáðir auðmennirnir neita. Heildarmyndin flækist af því að auðmennirnir eru á sama tíma stórir hluthafar í íslenska fjölmiðlageiranum - og virðast ekki telja sig of góða til að nýta sér það."

Berlingske segir að lengst gangi Jón Ásgeir til verks í þessum efnum í stærsta blaði landsins, Fréttablaðinu, þar sem hann hefur tögl og haldir. Hann hafi fengið á prent neitun á sögunni um skíðaskálann í samkeppnisblaðinu Morgunblaðið. Og hann haldi því fram að sagan sé byggð á stolnum tölvupóstum, sem auk þess er búið að breyta, ásamt því að drukkinn blaðamaður hafi haft í hótunum við hann og lögfræðingur hafi reynt að kúga fé út úr honum.

Í greininni er sagt að frá bankahruninu s.l. haust hafi verið stríður straumum af sögum um að háttsettir bankamenn og stórhluthafar hafi stundað dularfull viðskipti. Allt frá því að taka gífurleg lán í eigin bönkum án trygginga yfir í hlutabréfakaup í gegnum skattaskjólseyjar og eignaflutning til útlanda eða til maka.

Hingað til hafa einkum bankinn Kaupþing og verslunarveldið Baugur verið í fjölmiðlum en nú er Björgólfsfjölskyldan og þeirra banki kominn í sviðsljósið.

Í aðra röndina eru þessar nýju sögur aðeins það sama og áður hefur komið fram.

Í hina röndina eru upphæðirnar orðnar mun hærri en áður og á sama tíma svíður sérlega undan tapinu hjá Landsbankanum. Sá reikningur mun nefnilega lenda beint á íslenskum skattborgurum ef svo fer sem horfir að ríkissjóður tryggi innistæður Breta og Hollendinga í Icesave, netbanka Landsbankans.

Berlingske segir að ástandið hafi verið nokkuð friðsamt frá því að mótmæli almennings leiddu til þess að ríkisstjórnin, seðlabankastjórnin og stjórn Fjármálaeftirlitsins hrökklaðist frá völdum. En útlitið fyrir að skattborgarar þurfi að gera upp Icesave reikninginn gerir það að verkum að hugsanlegt óhreint mjöl í pokahorni Landsbankans og Björgólfs Thors gæti leitt til þess að mótmælin blossuðu upp að nýju.

Blaðið gerir einnig kröfu Björgólfsfeðga um afslátt á stóru láni í Kaupþingi að umtalsefni. Þeirri kröfu hafi almenningur svarað með hreinu nei. Og nefnir einnig að Icesave sé óklárað. Því meira sem komi í ljós um málefni Landsbankans því óvinsælla verði Icesave-samkomulagið.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×