Viðskipti innlent

Launakröfum æðstu stjórnenda hafnað á grundvelli gjaldþrotalaga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Birna Einarsdóttir er ein þeirra sem gerðu kröfu í þrotabú Glitnis.
Birna Einarsdóttir er ein þeirra sem gerðu kröfu í þrotabú Glitnis.
Slitastjórn Glitnis ákvað að hafna launakröfum allra þeirra fyrrverandi starfsmanna bankans sem sátu í framkvæmdastjórn bankans. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar, segir að ákvörðunin sé tekin á grundvelli 112. greinar gjaldþrotalaga. Þar segir meðal annars að þeir sem hafi haft með höndum framkvæmdastjórn félags eða stofnunar sem er til gjaldþrotaskipta geti ekki gert launakröfu í þrotabú. Slitastjórn Landsbankans hefur hins vegar ekki tekið afstöðu til sama lagaákvæðis.

Steinunn segir að aldrei hafi reynt á fyrrgreint lagaákvæði. Það sé álitamál hvort lagaákvæðið eigi við um forstjóra eða framkvæmdastjóra en slitastjórnin hafi ákveðið að túlka það svo að það taki til allrar framkvæmdastjórnarinnar.

Steinunn segir að það verði haldinn fundur þann 17. desember síðastliðinn þar sem slitastjórn muni gera grein fyrir kröfuskránni og ákvörðun slitastjórnar. Þar gefist kröfuhöfum tækifæri til að andmæla ákvörðun slitastjórnarinnar. „Ef það gerist, þá er kominn upp ágreiningur milli slitastjórnar og kröfuhafa um það hvernig eigi að flokka kröfurnar. Sá ágreiningur gæti farið fyrir dómstóla ef ekki tekst að leysa úr honum," segir Steinunn.

Frá Páli Benediktssyni, upplýsingafulltrúa slitastjórnar Landsbankans, fengust þær upplýsingar að ekki hefði verið tekin afstaða til launakrafna í þrotabú bankans. Það mun skipta máli hvernig afstöðu slitastjórnin tekur til fyrrgreinds lagaákvæðis enda nema kröfur framkvæmdastjóra bankans hundruðum milljóna.

Á meðal þeirra framkvæmdastjóra sem gerðu launakröfu í þrotabú Glitnis er Birna Einarsdóttir sem nú er bankastjóri Íslandsbanka.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×