Viðskipti innlent

Viðskiptakjör hafa versnað töluvert

Á föstu gengi var útflutningsverðmæti nærri fjórðungi minna í mars en á sama tíma í fyrra, en innflutningsverðmætið 46% minna.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að það sé því fyrst og fremst mikill samdráttur í innflutningi fremur en aukning útflutnings sem skýrir viðsnúning frá 2,3 milljarða kr. halla í mars í fyrra yfir í rúmlega 8 milljarða kr. afgang núna.

Rýrari útflutningur á milli ára skýrist að mestu leyti af verðfalli á hrávörumörkuðum. Þróun viðskiptakjara, þ.e. hlutfalls verðs á útflutningsvörum og innflutningsvörum, hefur verið býsna óhagstæð frá nóvember í fyrra þar sem álverð hefur fallið mikið og verð á sjávarafurðum hefur einnig lækkað töluvert á sama tíma og verð á eldsneyti og mörgum öðrum helstu innflutningsvörum hefur tiltölulega lítið breyst.

Þessar tölur eru í takti við það sem búast mátti við og mun innflutningur áfram verða í lágmarki næsta kastið að mati greiningarinnar. Hins vegar er verðlækkun helstu útflutningsafurða talsvert áhyggjuefni og ef verð á áli og sjávarafurðum réttir ekki úr kútnum það sem eftir er árs gæti afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd orðið töluvert minni en þau tæpu 10% af landsframleiðslu sem Seðlabankinn spáði í janúar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×