Viðskipti innlent

Gengi krónunnar allt of lágt

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Gengi krónunnar er mun lægra en peningastefnunefnd Seðlabankans telur viðunandi. Þeim mun lengur sem gengi krónunnar er svona lágt þeim mun líklegra er að það komi fram í aukinni verðbólgu.

Ljóst er að nefndin vill sjá krónuna styrkjast talsvert. Seðlabankinn gerir ráð fyrir því í sínum spám að gengi krónunnar á fjórða ársfjórðungi verði um 176 krónur gagnvart evru en nú er krónan 180 krónur gagnvart evrunni. Þetta kemur fram í morgunkorni Greiningardeildar Íslandsbanka.

Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að gengi krónunnar haldi áfram að hækka fram á næsta ár og verði komið í 160 krónur í lok næsta árs.

Spáir bankinn því að verðbólgan komi til með að hjaðna nokkuð hratt samhliða þessu og reiknar með því að verðbólgan verði komin í 2,3% í lok næsta árs. Útilokar bankinn ekki verðhjöðnun á næstu misserum sérstaklega ef krónan kemur til með að styrkjast meira en reiknað er með í spá Seðlabankans.

Mikið framboð er af lausu fé og því eru innlánsvextir bankans meira ráðandi en stýrivextirnir. Vextir á viðskiptareikningum í Seðlabankanum eru 9,5% og ákvað peningastefnunefndin að halda þeim einnig óbreyttum í dag líkt og stýrivötum sínum.

Vextir innlána hjá viðskiptabönkunum hafa verið lækkaðir hratt undanfarið og eru þeir nú umtalsvert undir vöxtum Seðlabankans.



Lítil viðbrögð á fjármálamarkaði í ljósi óbreyttra stýrivaxta


Lítil viðbrögð hafa verið á fjármálamarkaði við aðgerðir og orðum Seðlabankans í morgun. Gengi krónunnar hefur lækkað um 0,25% í afar litlum viðskiptum á millibankarkaði með gjaldeyri. Litlar ávöxtunarkröfubreytingar hafa verið á skuldabréfamarkaði en viðskipti þar hafa verið lífleg engu að síður.

Aðgerðir og orð bankans virðast því hafa verið í takti við væntingar en Greiningardeildir stóru viðskiptabankanna þriggja höfðu allar spáð sömu niðurstöðum og raunin varð hjá peningastefnunefnd Seðlabankans.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×