Skoðun

Grunnskólabörn kynnast ferðamáta framtíðarinnar

Jórunn Frímannsdóttir skrifar

Stjórn Strætó bs samþykkti á fundi sínum þann 1. októ­ber að bjóða öllum grunnskólum sveitarfélaganna sem standa að rekstri Strætó bs. svokölluð grunnskólakort, sem eru sérstök hópakort ætluð til vettvangsferða kennara og nemenda.

Kortin gilda milli klukkan 9 og 15 virka daga, þ.e. utan helstu annatíma strætó sem eru snemma á morgnana og síðdegis. Tilgangurinn er að kynna strætó fyrir ungu fólki og þannig auka líkurnar á að börn og unglingar læri að nýta sér kosti almenningssamgangna. Um leið aukast möguleikar kennara á að fara í styttri vettvangsferðir með nemendur sína.

Þannig verður auðveldara fyrir grunnskólakennara og nemendur þeirra að nýta t.a.m. listasöfn, almenningsgarða, útikennslustofur og annað sem höfuðborgarsvæðið hefur upp á að bjóða til kennslu.



Aukin þekking og færni í notkun strætóMikilvægt er að börn og unglingar öðlist færni í að nýta sér strætó við sem flest tækifæri, því þannig aukum við vitund yngstu kynslóðarinnar um þennan valkost í samgöngum. Aukin þekking og færni skilar sér síðan í því að börn og unglingar geta nýtt sér strætó betur, bæði á skólatíma og í frístundum.

Kortin verða útbúin með skjaldarmerki þess sveitarfélags sem hver skóli tilheyrir og verður fjöldi korta mismunandi eftir skólum. Miðað verður við að aldrei séu færri en tvö slík kort í skóla en annars er miðað við að eitt kort sé gefið út á hver hundrað börn. Kortin gilda einungis utan annatíma strætó til að forðast það að grunnskólahópar komi í vagnana á þeim tímum sem flestir farþegar eru í vögnunum. Engu að síður er nauðsynlegt við notkun kortanna að fara ekki af stað með stóra hópa án þess að láta Strætó bs. vita fyrirfram að von sé á stórum hópum á ákveðnum tíma á ákveðnum leiðum. Jafnframt er nauðsynlegt að hafa í huga að greiðandi farþegar hafa alltaf forgang fram yfir hópa og getur þurft að skipta hóp á fleiri ferðir ef vagninn fyllist óþægilega mikið.

Eykur fjölbreytni skólastarfsinsÞað er von okkar í stjórn Strætó bs. að þessi nýjung muni mælast vel fyrir í grunnskólum höfuð­borgarsvæðisins og verða til þess að kennarar fari í auknum mæli með nemendur í vettvangsferðir. Það eykur fjölbreytni skólastarfsins um leið og börnin læra á strætósamgöngur og kynnast þannig ferðamáta til framtíðar.

Höfundur er stjórnarformaður Strætó bs.




Skoðun

Sjá meira


×