Viðskipti innlent

Hagar semja um 7 milljarða endurfjármögnun hjá tveimur bönkum

Hagar hf. hafa undirritað samkomulag við Nýja Kaupþing banka hf. og NBI hf. um endurfjármögnun félagsins með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki lánanefnda bankanna.

Í tilkynningu til kauphallar segir að fjármögnunin mun tryggja að Hagar hf. greiði skuldabréfaflokk félagsins á gjalddaga hans 19. október 2009. Nafnvirði skuldabréfaflokksins er 7 milljarðar króna.

Hagar reka Bónus og Hagkaup og fjölmargar aðrar smásöluverslanir. Hagar áttu 43% hlut í Húsasmiðjunni þar til í fyrradag þegar ákveðið var á aðalfundi Húsasmiðjunnar hf. að að færa hlutafé hennar niður í núll. Bókfært verðmæti hlutafjárins hjá Högum hf. hefur verið afskrifað. Að sögn forsvarsmanna Haga hf. hefur afskriftin engin áhrif á endurgreiðsluhæfni félagsins á skráðum skuldabréfaflokki Haga hf.

Þessar fregnir koma í kjölfar frétta af umdeildri sölu á Högum frá Baugi til Gaums, félags í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu. Skiptastjóri þrotabús Baugs hefur haft þá sölu til skoðunar og líklegt er að þau mál endi fyrir dómstólum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×