Viðskipti innlent

Greining: Gjaldþrotum fyrirtækja fjölgar áfram

Greining Íslandsbanka segir að gera megi ráð fyrir því að gjaldþrotum fyrirtækja muni halda áfram að fjölga á næstu mánuðum. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar þar sem fjallar er um upplýsingar sem Hagstofan birti í morgun um gjaldþrot fyrirtækja.

Í Morgunkorninu segir að það sem af er ári var aukningin á gjaldþrotum fyrirtækja mest á fyrsta þriðjungi ársins en svo tók við tímabil þar sem fjöldi gjaldþrota fyrirtækja var viðlíka eða jafnvel minni en á sama tímabili í fyrra. Í september tók svo gjaldþrota fyrirtækjum að fjölga á ný og voru þau um 65% fleiri en í sama mánuði árið 2008.

Má reikna með að mörgum þeirra fyrirtækja sem hafa orðið illa út í efnahagshremmingum síðustu misseri hafi verið haldið uppi af bönkum og koma þannig afleiðingar kreppunnar fram með töf í gjaldþrotatölum.

Ljóst er að fjöldi fyrirtækja er í verulegum greiðsluerfiðleikum en skv. upplýsingum frá Seðlabankanum var um fjórðungur fyrirtækja með lán í vanskilum í lok júní síðastliðinn og sökum þess hve stór hluti útlána til fyrirtækja eru kúlulán er líklegt að tölur um vanskil vanmeti vanda fyrirtækja. Gera má ráð fyrir að gjaldþrotum fyrirtækja haldi áfram að fjölga á næstu mánuðum.

Ytri aðstæður í hagkerfinu hafa verið afar erfiðar í byggingariðnaði og er sá samdráttur sem orðið hefur í þessari tegund af starfsemi einnig sjáanlegur í atvinnuleysistölum. Alls hafði um fimmtungur þeirra sem voru án atvinnu í október starfað í mannvirkjagerða, eða samtals um 2.360 manns.

Áður en bankahrunið skall á í byrjun október fyrir ári var fjöldi atvinnulausra sem áður störfuðu við mannvirkjagerð rétt um 212. Auk þess horfir ekki vel hjá fyrirtækjum í þessari tegund af starfsemi miðað við þær upplýsingar sem komu fram í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika. Þar kom fram að um helmingur útlána til fyrirtækja í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð fellur á gjaldaga á næstu fjórum árum og um þriðjungur á næstu tólf mánuðum en þessi stutti líftími lána gæti bakað þeim enn frekari erfiðleikum þegar fram í sækir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×