Viðskipti innlent

Seðlabankinn fagnar ekki kostnaði vegna Daniel Gros

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra segir að kostnaður vegna setu Daniel Gros nemi fimm milljónum kr, ári. Seðlabankinn þarf að bera þennan kostnað og mun ekki hafa tekið því fagnandi. „Þetta er þó ekki stærsta fjármálaáfallið sem Seðlabankinn hefur orðið fyrir," segir Gylfi.

Þessar upplýsingar komu fram á Alþingi í morgun í svari ráðherra við fyrirspurn Valgerðar Bjarnadóttur þingmanns Samfylkingarinnar um hver kostnaðurinn væri af Gros og hver myndi bera hann. Sem kunnugt er var Gros skipaður í stjórn Seðlabankans sem fulltrúi Framsóknarflokksins.

Í fyrirspurn sinni tók Valgerður sérstaklega fram að hún væri ekki að þessu vegna þess að hún væri á móti útlendingum, heldur vildi upplýsa þingmenn um kostaðinn við að ráða erlenda menn til starfa.

Í svari ráðherra kom fram að stærstur hluti af kostnaði vegna Gros væri ferða- og þýðingarkostnaður en þýða þarf vinnuskjöl bankaráðs fyrir Gros. Það gildir þó ekki um skjöl peningastefnunefndar þar sem þau eru á ensku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×