Viðskipti innlent

Tekjur af hótelherbergjum hækka um 23% í krónum talið

Tekjur fyrir framboðið herbergi á þriggja og fjögurra stjörnu hótelum í Reykjavík mældar í krónum eru 23,0% hærri í júlímánuði en á sama tíma í fyrra, þar af hafa tekjur fyrir fjögurra stjörnu gistingu hækkað um 30,0% á milli ára en tekjur fyrir þriggja stjörnu gistingu hafa hækkað um 12,5% á milli ára.

Þetta kemur fram í fréttabréfi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) en nú liggja fyrir niðurstöður júlímánaðar úr tekjukönnun SAF og STR-Global.

Meðalherbergjanýting í Reykjavík lækkar um 0,4% á milli ára en hún er 82,6% nú miðað við 82,9% fyrir ári. Fjögurra stjörnu hótel í Reykjavík eru með 3,4% betri nýtingu sem nú. Hún er 81,5% en var 78,8% í júlí í fyrra.

Þriggja stjörnu hótel eru hins vegar með 5,6% lakari nýtingu sem er 84,2% nú en var 89,1% í júní árið 2008. Á landsbyggðinni er nýtingin 3,5% betri nú með 92,0% nýtingu á móti 88,9% fyrir ári.

Séu tekjur fyrir framboðið herbergi skoðaðar í evrum kemur í ljós lækkun um 15,6% í Reykjavík í júlí. Til samanburðar hafa tekjurnar í evrum á Norðurlöndunum í heild lækkað um 11,1% í júlí.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×