Viðskipti innlent

Met afgangur af vöruskiptum á fyrri hluta ársins

Vöruskiptajöfnuðurinn í júní mánuði var jákvæður um 8,7 milljarða króna samkvæmt tölum Hagstofunnar og er það í takt við bráðabirgðatölur sem gefnar voru út í byrjun mánaðarins. Alls voru fluttar út vörur fyrir 40,7 milljarða króna og inn fyrir tæpa 32 milljarða í mánuðinum. Hagsjá Landsbankans greinir frá þessu í dag.

Á fyrstu sex mánuðum ársins voru fluttar inn vörur fyrir 178,8 milljarða en út fyrir 211,8 milljarða sem gefur jákvæðan vöruskiptajöfnuð upp á tæpa 33 milljarða.

Á sama tímabili í fyrra var hann neikvæður um 37,8 milljarða á sama gengi. Aldrei hefur verið meiri afgangur af vöruskiptum ef reiknað er á gengi hvers árs frá 1989.



Þriðjungs samdráttur í útflutningi á föstu verðlagi

Þegar fyrri árshelmingar 2008 og 2009 eru skoðaðir á föstu gengi sést að útflutningur hefur dregist saman um 30,7%, mestu munar um samdrátt í iðnaðarvörum sem drógust saman um tæpan þriðjung og samdrátt í útflutningsverðmæti sjávarafurða um tæpan fimmtung.

Álverð hefur lækkað gríðarlega frá miðju síðasta ári og hefur sú þróun dregið úr útflutningsverðmæti áls, þrátt fyrir framleiðsluaukningu hér á landi. Þá hefur verð á sjávarafurðum einnig verið lágt en veikt gengi krónunnar og kvótaaukning hafa ekki náð að vega að fullu upp á móti verðlækkuninni.



Mestur innflutningssamdráttur í flutningstækjum

Innflutningur hefur hins vegar dregist mun meira saman eða um tæpan helming, en samdrátturinn er langmestur í innflutningi flutningatækja, sem nú er rétt fjórðungur af því sem hann var í fyrra, miðað við fast gengi.

Stærstu innflutningsflokkarnir, hrá- og rekstrarvörur, fjárfestingarvörur og aðrar ótaldar neysluvörur sem saman vógu um 70% af öllum innflutningi á fyrstu sex mánuðum ársins drógust saman um 42-46% samanborið við sama tímabil í fyrra.



Mikil óvissa um viðskiptajöfnuð á öðrum ársfjórðungi


Viðskiptajöfnuður, sem samsettur er úr vöruskipta- og þjónustujöfnuði auk jöfnuði þáttatekna, hefur ekki verið jákvæður síðan á fyrsta ársfjórðungi 2003.

Vöruskiptajöfnuður var hagstæður um 18,4 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs og halli á þjónustujöfnuði hefur verið að dragast hratt saman að undanförnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×