Viðskipti innlent

Ný ríkisbréf til tveggja ára væntanleg

Helstu tíðindin í tilkynningunni um útboð ríkisbréfa á föstudag eru að væntanlega líti dagsins ljós nýr flokkur ríkisbréfa til tveggja ára. Auk hans er óskað eftir tilboðum í tvo skuldabréfaflokka, lengsta ríkisbréfaflokkinn og þann þriðja lengsta. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka.

Við lokagjalddaga ríkisbréfaflokksins RIKB 09 ákváðu stjórnvöld að gefa ekki út nýjan tveggja ára ríkisbréfaflokk að sinni, en leggja þess í stað áherslu á útgáfu lengri ríkisbréfaflokka.

Stjórnvöld útskýrðu ekki á sínum tíma hvað lá að baki þeirri ákvörðun um að gefa ekki út nýjan tveggja ára ríkisbréfaflokk. Greiningunni þykir líklegast að helsta skýringin sé snörp hækkun á ávöxtunarkröfu lengri ríkisbréfaflokkanna, sem gerir fjármögnun ríkisins til lengri tíma þeim mun dýrari.

Erlendir fjárfestar virðast flestir áhugasamari um að kaupa styttri ríkisbréf en þau lengri. Má ætla að nýja flokknum sé ætlað að brúa bilið milli óverðtryggðra ríkisbréfa sem eru á gjalddaga á næsta ári, þar sem útlendingar eiga drjúgan meirihluta, og óverðtryggðra ríkisbréfa á gjalddaga í maí árið 2017, þar sem eignarhlutur útlendinga er nokkuð innan við helming.




Tengdar fréttir

Ríkisvíxlar fyrir 40 milljarða seldir í morgun

Alls voru ríkisvíxlar fyrir 40 milljarða kr. seldir í útboði með tilboðsfyrirkomulagi hjá Seðlabanka Íslands í morgun. Þetta er helmingi hærri upphæð en í útboðinu sem haldið var í maí s.l. þegar tilboðum fyrir 20 milljarða kr. var tekið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×