Skoðun

Borgaraleg handtaka

Jón Þór Ólafsson skrifar
Eva Joly segir allar líkur fyrir því að efnahagsbrot hafi verið framin en ríkisstjórnin hundsar færasta ráðgjafann sinn og hindrar rannsókn hrunsins með ónógum fjárframlögum. Í dag, næstum ári frá hruni, er ljóst að ríkisstjórnin mun leyfa flestum bankamönnunum að sleppa og skella skuldum sem þeir stofnuðu til á okkur.

Réttlætingin fyrir því að borgararnir taki völdin í sínar hendur er vel greypt í réttlætisvitund og lög Vesturlanda. Borgaraleg handtaka hefur lengi verið lögleg á Vesturlöndum og var 26. mars 1991 bundin í „Lög um meðferð opinbera mála“ á Íslandi. Í 97. grein laganna segir: „1. Lögreglu er rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur er á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum. 2. Sams konar heimild hefur hver sá sem stendur mann að broti sem sætt getur ákæru og varðað getur fangelsi. Afhenda skal hinn handtekna lögreglunni tafarlaust ásamt upplýsingum um ástæðu handtökunnar og hvenær hún fór fram.“

Ef við stöndum fólk í dag að broti sem sætt getur ákæru og varðað getur fangelsi getum við handtekið það. Það er gott að vita því spillingin grasserar enn. En er hægt að grípa til borgaralegrar handtöku núna vegna liðinna atburða? Mögulegt er að túlka lögin þannig að borgari sem stóð einhvern að verknaði sem hann vissi ekki að væri glæpsamlegur, gæti núna þegar hann veit betur framkvæmt borgaralega handtöku, til að ná fram tilgangi laganna: „að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum.“ Þeir sem þora geta reynt á þetta fyrir dómstólum, því bankamennirnir munu án efa kæra handtökuna.

Mikið væri það góður dagur að sjá mennina sem orsökuðu hrunið handtekna og færða til lögreglu með myndavélar fjölmiðla í andlitinu. Þetta færi í heimspressuna og sýndi heiminum að það ábyrgasta sem Íslendingar gera er ekki að borga skuldir bankamannanna. Það ábyrgasta er að láta þá svara til saka.Höfundur er borgari.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×