Viðskipti innlent

Íslendingar ekki verið jafnbjartsýnir síðan fyrir hrun

Eitthvað virðist svartsýni íslenskra heimila vera á undanhaldi. Væntingavísitala Gallup er í október er sú hæsta síðan fyrir hrun bankanna í október í fyrra en vísitalan hefur verið að hækka síðustu þrjá mánuði.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að vísitalan standi nú í 47,9 stigum en var 33,5 stig í september. Stóð vísitalan lægst á árinu í janúar en þá mældist hún 19,5 stig en þess má geta að þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri svartsýnir en bjartsýnir á efnahags- og atvinnuástandið á meðal svarenda.

Auknar væntingar til ástandsins í efnahags- og atvinnumálum eftir 6 mánuði skýra hækkun vísitölunnar síðustu þrjá mánuði en mat á núverandi ástandi hefur haldist nokkuð stöðugt og afar lágt nær allt árið.

Þannig er vísitalan sem lýsir núverandi ástandi 9,6 stig en sú sem lýsir væntingum til ástandsins eftir 6 mánuði stendur í 73,5 stigum og hækkar hún um 27,5 stig á milli mánaða. Það var Capacent Gallup sem birti þessar niðurstöður könnunnar sinnar í morgun.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×