Viðskipti innlent

Ríkisskattstjóri: Tæplega 300 aflandsfélög til skoðunar

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Ríkisskattstjóri hefur nú á þriðja hundrað félaga til skoðunar sem stofnuð hafa verið á Bresku Jómfrúareyjunum. Búið er að greina eignartengsl á mörgum þeirra en félögin tengjast í mörgum tilvikum áberandi mönnum í viðskiptalífinu.

Ríkisskattstjóri hefur undanfarið unnið að því að greina eignarhald á íslenskum fyrirtækjum og tengsl íslenskra aðila, einstaklinga sem fyrirtækja, við erlend félög í skattaskjólum. Félögin sem um ræðir skipta hundruðum. Til þess að greina tengslin við Ísland hefur ríkisskattstjóri farið yfir opinberar skráningar hérlendis og erlendis.

Þá hefur verið litið til þess hvort félögin beri íslenskt nafn eða nafn sem er þekkt hér á landi, hvort hlutaféð sé skráð í íslenskum krónum, hvort stjórnarmenn eða prókúruhafar séu Íslendingar, hvort heimilisfang félaganna sé skráð hjá t.d. erlendum dótturfélögum íslensku bankanna eða hvort íslenskir aðilar hafi komið að því að skrá erlendu félögin hér á landi vegna bankaviðskipta.

Samkvæmt heimildum fréttastofu skoðar Ríkisskattstjóri nú á þriðja hundrað félög sem flest eru með heimilisfesti á Bresku jómfrúareyjunum. Leiðin þangað lá í flestum tilvikum í gegnum íslensku bankanna í Lúxemborg.

Hér má sjá dæmi um erlend félög sem eru með nöfn sem tengjast Íslandi;

Novator Pharma

Novator Credit

Samson Global Holding

Valhamar

Baugur Holding

Iceland Express Investments

Ármúli Holding

Ker Holding

Iceland Glaciers Products

Askja Holding

Og hér eru félög sem hafa talið fram í íslenskum krónum:

Audur Investment Holding

Helga Holding

Sorbus Holding

Nöfnin á þessum félögum tengjast íslenskum viðskiptamönnum á borð við Björgólfsfeðga, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni í Fons og Ólafi Ólafssyni sem kenndur er við Samskip.

Ríkisskattstjóri hefur einnig fengið upplýsingar um félög sem eru á svonefndri utangarðsskrá. Á þeirri skrá eru erlend félög sem hafa haft bankaviðskipti hér á landi en til þess þurftu þau kennitölu. Íslensku bankarnir stofnuðu hundruði slíkra félaga.

Hér er dæmi um slík félög en þau eru öll skráð á bresku jómfrúareyjunum.

Mosi Holding Ltd.

Tario S.A.

Hessman Ltd.Crillo S.A.

Holt Investment Group Ltd.

Um leið og ríkisskattstjóri hefur lokið við að greina hverjir standa að baki allra þessara félaga mun skoðunin beinast að því hvort að eigendur þeirra hafi talið eignatengslin fram og að skattskil hafi verið með þeim hætti sem áskilið er í lögum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×