Innlent

U-beygjur í Icesave og AGS

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gengið hart fram í gagnrýni á nýja Icesave-samninga við Breta og Hollendinga. Um leið hefur Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra lýst samningunum góðum. Eftir að samningarnir voru kynntir á sunnudaginn sagði Bjarni að vegið hefði verið að sjálfstæði íslensku þjóðarinnar með því að neita henni um þann sjálfsagða rétt að fá skorið úr um málið fyrir hlutlausum dómstólum.

Þessi orð ríma illa við ræðu hans á þingi fyrir ári. Þá sagði hann: „Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja það í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum.“

Í desember í fyrra, þegar ríkisstjórnin aflaði sér stuðnings þingsins til að semja við Breta og Hollendinga, lagði Steingrímur áherslu á að ekki yrði rætt við Breta á meðan hryðjuverkalög þeirra gagnvart Landsbankanum væru í gildi. „Þess í stað verði stjórnvöldum falið að taka upp samningaviðræður við deiluaðila að nýju á hreinu borði og leita þar eftir því og sækja fast á um að fá fram lögformlegan úrskurðarfarveg í deilumálinu og/eða samningsniðurstöðu á sanngjörnum forsendum,“ sagði hann. Undir hans forræði var skrifað undir Icesave-samningana 11. júní. Hryðjuverkalögin voru þá enn í gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×