Viðskipti innlent

Tekjuafgangur LSS minnkar um helming

Afkoma Lánasjóðs sveitarfélaga (LSS) á fyrri hluta ársins 2009 var í samræmi við væntingar og er tekjuafgangur 586 milljónir kr. á móti 1.163 milljónir kr. fyrir sama tímabil fyrra árs.

Útlán sem fjármögnuð eru með eigin fé eru verðtryggð og þar sem hækkun vísitölu á fyrri hluta árs er lægri en á sama tímabili í fyrra skýrir það lægri afkomu nú samanborið við 2008. Vextir af þeim lánum hafa verið óbreyttir frá síðasta hausti 4,25%. Einnig var ávöxtun á lausu fé lægri en á sama tímabili á síðasta ári, en er þó góð miðað við efnahagsástand.

Á tímabilinu var skuldabréf útgefið af SPRON fært að fullu niður í bókum sjóðsins. Sjóðurinn mun krefja skilanefnd um greiðslu skuldarinnar en óvíst er með heimtur. Sama á við um afleiðuskuld Glitnis banka við sjóðinn sem sjóðurinn hefur lýst í þrotabú bankans.

Útborguð langtímalán á fyrri hluta ársins 2009 voru 4,9 milljarða kr., samanborið við 6,3 milljarða kr. á sama tíma árið 2008. Vanskil eru engin og hefur sjóðurinn ekki tapað útláni frá því að hann hóf starfsemi árið 1967.

Á tímabilinu gaf sjóðurinn út skuldabréf að fjárhæð 6,5 milljarða kr. á innlendum skuldabréfamarkaði.

Eigið fé í lok tímabilsins var 11,9 milljarða kr. á móti 11,2 milljörðum kr. um mitt ár 2008. Eiginfjárhlutfall sjóðsins var í lok tímabilsins 62% samkvæmt hinum nýju Basel II reglum.

Gert er ráð fyrir að hagnaður lánasjóðsins fyrir árið í heild verði svipaður því sem var síðastliðin tvö ár, en það mun aðallega ráðast af hækkun verðlags það sem eftir lifir árs og þróun skammtímavaxta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×