Viðskipti innlent

Hlutabréf Össurar taka flugið

Forstjóri Össurar Mikil eftirspurn hefur verið eftir hlutabréfum Össurar ytra eftir að félagið var skráð á markað í Danmörku.
 Fréttablaðið/vilhelm
Forstjóri Össurar Mikil eftirspurn hefur verið eftir hlutabréfum Össurar ytra eftir að félagið var skráð á markað í Danmörku. Fréttablaðið/vilhelm

Talsverð hreyfing var með hlutabréf stoðtækjafyrirtækisins Össurar jafnt hér sem á hlutabréfamarkaði í Kaupmannahöfn í Danmörku í gær eftir að sænski bankinn SEB Enskilda birti nýtt og verulega uppfært verðmat á félaginu. Gengi bréfanna rauk upp um fimm prósent hér en um tæp átta í Danmörku.

Enskilda segir í mati sínu að uppgjör Össurar á þriðja ársfjórðungi sé umfram væntingar. Miklar vonir séu bundnar við rafeindastýrðar vörur með gervigreind auk þess sem vænta megi betri sölu á öðrum vöruflokkum.

Greinendur bankans mæla með því að fjárfestar bæti við hlut sinn og setji 8,2 danskra króna verðmiða á hvern hlut félagsins. Það jafngildir rúmum tvö hundruð íslenskum krónum samanborið við 147 krónur hér. Þetta er um fjörutíu prósentum hærra mat en núverandi verð bréfanna ytra. Þar standa þau í 6,10 dönskum krónum á hlut, sem jafngildir 152 íslenskum krónum á hlut saman­borið við 147,5 krónur hér.

Talsverð eftirspurn hefur verið eftir hlutabréfum Össurar ytra í kjölfar skráningar félagsins þar í september. Framboð hefur á móti verið takmarkað.

Valdimar Halldórsson, sérfræðingur hjá IFS Greiningu, segir mikla eftirspurn eftir bréfunum ekki koma sér á óvart enda Össur gott félag með frábært sjóðstreymi. Svo virðist sem þeir sem hafi keypt bréfin í útboðinu á dögunum vilji ekki selja mikið af þeim í bili nema fyrir hærra verð. Talsverður áhugi hafi vaknað á fyrirtækinu ytra eftir skráninguna þar og greini nú fjögur fjármálafyrirtæki Össur erlendis.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×