Viðskipti innlent

Baldur þarf sjálfur að bera kyrrsetninguna undir dómstóla

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Rannsókn á máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, er langt komin. Baldur þarf sjálfur að bera ákvörðun um kyrrsetningu eigna sinna undir dómstóla vilji hann hnekkja henni. Baldur er hæst setti embættismaður Íslendinga sem hefur verið til rannsóknar af ákæruvaldi vegna gruns um brot.

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, þarf sjálfur að að bera ágreining vegna kyrrsetningar á hluta hluta eigna sinna fyrir dómstóla til að fá henni hnekkt.

Eins og fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá á þriðjudag, fyrst fjölmiðla, kyrrsetti embætti sérstaks saksóknara hluta eigna Baldurs sem nemur söluandvirði hlutabréfa hans í Landsbankanum 17. september á síðasta ári.

Grunur leikur á að Baldur, sem seldi hlutabréf fyrir á annað hundrað milljónir króna, hafi verið tímabundinn innherji í skilningi laga um verðbréfaviðskipti og því ekki mátt selja bréfin samkvæmt sömu lögum. Kyrrsetningin var gerð í síðustu viku þegar beiðni var send til Sýslumannsins í Reykjavík.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er rannsókn sérstaks saksóknara langt komin. Ef embættið tekur ákvörðun um að fella niður rannsókn á meintum innherjaviðskiptum Baldurs fellur kyrrsetningin sjálfkrafa úr gildi, en engar vísbendingar eru um að það sé uppi á teningnum. Með sama hætti fellur kyrrsetningin niður ef Baldur verður sýknaður með endanlegum dómi.

Fram kemur í frétt Þórðar Snæs Júlíussonar í Viðskiptablaðinu í dag að embætti sérstaks saksóknara hafi þegar yfirheyrt Baldur og að hann sé jafnframt hæst setti embættismaður Íslendinga sem ákæruvald hafi rannsakað vegna gruns um brot.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×