Viðskipti innlent

Óbreyttir stýrivextir, traust vinnumarkaðarins brotið

„Öruggt er að peningastefnunefnd bankans mun ekki telja að forsendur hafi skapast fyrir lækkun vaxta niður fyrir tveggja stafa tölu en reikna má með því að nefndin sé að funda í dag og á morgun vegna vaxtaákvörðunarinnar."

 

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag. Þar er fjallað um Stöðuleikasáttmálann og næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar sem er á fimmtudag. Stýrivextir standa nú í 12%.

 

Fram kemur í Morgunkorninu að ljóst sé að það traust sem aðilar vinnumarkaðarins lögðu á að stöðugleikasáttmálinn myndi skapa forsendur fyrir lækkun stýrivaxta Seðlabankans mun verða brotið.

 

„Við teljum líklegt að nefndin ákveði að halda vöxtum bankans óbreyttum. Við teljum einnig líklegt að aðilum vinnumarkaðarins verði ekki að þeirri ósk sinni að vextir bankans lækki hratt á næstu mánuðum. Spáum við því að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi stýrivöxtum sínum óbreyttum fram á annan ársfjórðung á næsta ári," segir greiningin.

 

Í Stöðugleikasáttmálanum svokallaða sem gerður var á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar í lok júní síðastliðins segir að aðilar vinnumarkaðarins treysta því að með sáttmálanum skapist forsendur fyrir því að stýrivextir Seðlabanka Íslands lækki í eins stafs tölu fyrir 1. nóvember 2009, og að þeir og aðrir vextir bankans fari síðan áfram lækkandi. Aðilarnir leggja einnig áherslu á að til að örva hagkerfið, efla atvinnulífið og bæta stöðu heimilanna sé nauðsynlegt að vextir lækki hratt á næstu mánuðum og að vaxtamunur við útlönd verði ásættanlegur.

 

Til þess að þetta markmið sáttmálans hefði gengið eftir hefði gengi krónunnar þurft að styrkjast allnokkuð frá því að sáttmálinn var gerður. Það er staða krónunnar sem peningastefnunefndin mun að öllum líkindum horfa mest á við ákvörðun sína í dag og á morgun, en krónan hefur gefið aðeins eftir frá því að sáttmálinn var gerður í sumar þrátt fyrir gjaldeyrishöft, umtalsverðan afgang af vöru- og þjónustujöfnuði og nokkur kaup Seðlabankans á krónum fyrir gjaldeyri á tímabilinu.



Fyrir liggur að sá stöðugleiki á vinnumarkaði sem Stöðugleikasáttmálinn færði með sér var ekki nægur til fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans til að lækka vexti. Fleira hefði þurft að koma til og má þar nefna ríkisábyrgð vegna Icesave, lánveitingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hinum Norðurlöndunum og frágang efnahagsreikninga bankanna. Það er með aðgerðum sem tryggt hefðu sterkari krónu sem forsendur hefðu skapast fyrri lækkun vaxta Seðlabankans nú. Ljóst er að það hefur ekki tekist.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×