Viðskipti innlent

Erlendum ferðamönnum fjölgaði um 6,5% í apríl

Tæplega 28 þúsund erlendir gestir fóru frá landinu um Leifsstöð í aprílmánuði, sem er um 1700 fleiri gestir en í sama mánuði á síðastliðnu ári. Aukningin nemur 6,5 prósentum milli ára.

Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Ferðamálastofu. Þar segir að ef litið er til einstakra markaðssvæða má sjá verulega fjölgun frá Mið- og S-Evrópu eða um tæp 26%. N.-Ameríkönum og Norðurlandabúum fjölgar ennfremur talsvert eða um 11%.

Svipaður fjöldi kemur hins vegar frá Bretlandi, en 11% fækkun á sér stað hjá öðrum mörkuðum sem ná yfir A.-Evrópulönd og fjarmarkaði utan Evrópu og N.-Ameríku.

Í aprílmánuði fóru hins vegar tíu þúsund færri Íslendingar utan en í sama mánuði í fyrra, voru 34.900 í aprílmánuði árið 2008 en 24.400 í ár.

Talningin er unnin á vegum Ferðamálastofu og nær yfir allar brottfarir um Leifsstöð, þ.m.t. brottfarir erlends vinnuafls. Nánari skiptingu gesta eftir markaðssvæðum og einstaka þjóðernum má sjá í töflunum hér að neðan.

Frá áramótum hafa 90 þúsund erlendir gestir farið frá landinu eða um 2,8% færri en árinu áður. Tæplega helmingsfækkun er hins vegar í brottförum Íslendinga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×