Viðskipti innlent

Byr tekur að sér greiðslumiðlun fyrir sparisjóðina

Byr sparisjóður hefur undanfarið unnið með Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands að uppbyggingu erlendrar greiðslumiðlunar fyrir Byr og aðra sparisjóði í landinu. Sparisjóðabankinn annaðist áður alla erlenda greislumiðlun sparisjóðanna. Byr hefur í framhaldi af þessu ráðið til sín 9 fyrrum starfsmenn Sparisjóðabankans til að annast þessi nýju verkefni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sparisjóðnum þar sem jafnframt er greint frá því að Byr hafi tekið að sér að annast innlenda greiðslumiðlun fyrir aðra sparisjóði en Byr hefur um alllangan tíma séð sjálfur um eigin innlenda greiðslumiðlun í gegnum Seðlabankann.

„Byr er í dag stærsti starfandi sparisjóður landsins og lá því beint við að sjóðurinn tæki að sér þessa þjónustu við sparisjóðina í landinu. Markmiðið er að viðskiptavinir sparisjóðanna verði ekki fyrir skertri þjónustu hvað varðar greiðslumiðlun innanlands en einnig var talið mikilvægt að erlend greiðslumiðlun á vegum sjálfstæðra fjármálastofnana leggðist ekki af. Því er þessi breyting stór þáttur í endurreisn íslenska fjármálakerfisins og tryggir að neytendur hafi sem fjölbreyttasta valkosti í fjármálaþjónustu," segir ennfremur.

Þá segir að Sparisjóðirnir á Íslandi hafi frá upphafi haft með sér náið samstarf, m.a. í fræðslumálum starfsfólks og tæknimálum og að það hafi styrkt samkeppnisstöðu þeirra gagnvart stærri fjármálastofnunum. „Með þessari breytingu er Byr sparisjóður að stíga skref í átt að auknu samstarfi og liðsheild sparisjóðanna í landinu. Vonast Byr að geta styrkt tengsl sín enn frekar við sparisjóðina og jafnframt verið þeirra helsti bakhjarl og samstarfsaðili," segir að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×