Viðskipti innlent

Hertar reglur loka hjáleið

Friðrik j. arngrímsson
Friðrik j. arngrímsson

Hertari gjaldeyrisreglur styrkja gengi krónunnar. Stutt síðan LÍÚ heyrði af leiðum framhjá gjaldeyrishöftum. Íslandsbanki segir erfitt að girða fyrir allar hjáleiðir.

„Það er mikilvægt að sömu reglur gildi fyrir alla. Við styðjum gjaldeyrishöftin ef þau styrkja gengið og ná vöxtum og verðbólgu niður,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands útgerðarmanna (LÍÚ).

Alþingi samþykkti í fyrrakvöld að breytingu á gjaldeyrisreglum sem fela í sér að útflutningsviðskipti verða að fara fram í erlendri mynt.

Fyrir breytinguna tíðkaðist í einhverjum mæli að erlendir fjárfestar keyptu krónur á erlendum mörkuðum, sem voru allt að þrjátíu prósent lægri en skráð miðgengi Seðlabankans. Greitt var fyrir með íslenskum krónum og uppskáru erlendir kaupendur því umtalsverðan gengishagnað. Erlendur gjaldeyrir skilaði sér því ekki heim vegna útflutnings. Viðskipti sem þessi voru ekki brot á reglum um gjaldeyris­viðskipti.

Friðrik segir það hafa komið sér á óvart að hægt var að fara framhjá skilaskyldu á gjaldeyri með þessum hætti. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hversu háar upphæðir hafi farið framhjá gjaldeyrishöftunum í viðskiptunum. Ótrúlegt er að ekki hafi verið gert ráð fyrir þessum möguleika, að sögn Friðriks.

Gengi krónunnar styrktist um 2,11 prósent í mjög litlum viðskiptum í gær og endaði gengisvísitalan í 208,50 stigum. Hún hafði áður veikst viðstöðulaust um tæp tólf prósent á þremur vikum.

Greining Íslandsbanka segir að með viðbótinni sé barið í augljósasta brest gjaldeyrishaftanna. Líkur séu á að gengi krónunnar styrkist fyrsta kastið. Þó sýni reynslan að ávallt sé reynt að fara fram hjá slíkum höftum og erfitt að girða fyrir allar hjáleiðir. Þó gætu snör viðbrögð yfirvalda við þeim misbresti sem einkenndi markaðinn á síðustu vikum latt menn í leitinni að nýjum leiðum fram hjá reglunum.

jonab@markadurinn.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×