Viðskipti innlent

Hagur HS Orku vænkast

Hagnaður HS Orku á fyrstu níu mánuðum ársins var rúmlega 2,2 milljarðar króna. Til samanburðar tapaði fyrirtækið 11,7 milljörðum á síðasta ári.

Eiginfjárhlutfall HS Orku er komið í 23 prósent en var 16,3 prósent í upphafi ársins. Á síðasta ári tapaði fyrirtækið tæplega 11,7 milljörðum króna, en hagnaður fyrstu níu mánaða þessa árs var tæplega 2,2 milljarðar króna.

Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku, segir að gengistap og hrap í álverði hafi komið niður á rekstrinum á síðasta ári. Álverð hafi nú tekið talsvert við sér. Hluti af reikningsskilastöðlum sem fyrirtækið beiti sé að reikna út framtíðarvirði orkusölusamninga við uppgjör. Heildarvirði samninganna sé reiknað út yfir líftímann og með hækkun á álverði hafi verðmæti þessara samninga aukist mikið.

Allt stefnir í að kanadíska orkufyrirtækið Magma Energy eignist 43 prósenta hluta í HS Orku, en skrifað hefur verið undir samninga þess efnis. Magma Energy tapaði 340 milljónum króna á fyrsta fjórðungi yfirstandandi rekstrarárs. Aðspurður hvenær Magma muni fara a njóta góðs af hagnaði HS Orku segir Júlíus að það sé samkomulagsatriði þeirra sem selja hlutabréfin í HS Orku. Hluti af samkomulagi HS Orku við helstu lánveitendur er að ekki verði greiddur út arður næstu tvö árin, svo Magma mun ekki njóta góðs af arðgreiðslum fyrr en í fyrsta lagi eftir þann tíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×