Viðskipti innlent

Sex milljarða króna sala Guðbjargar í Glitni til rannsóknar

Sérstakur saksóknari rannsakar um sex milljarða króna sölu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Morgunblaðsins, á hlut í Glitni þremur dögum fyrir þjóðnýtingu bankans.

Guðbjörg var sú eina af tuttugu stærstu hluthöfum Glitnis sem seldi hlut sinn í vikunni fyrir þjóðnýtinguna. Hún átti innan við tveggja prósenta hlut, en seldi hann allan föstudaginn 26. september og fékk um sex milljarða króna fyrir.

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, sem hefur verið helsti ráðgjafi Guðbjargar í viðskiptum á undanförnum árum sagði þá í samtali við fréttastofu, að tímasetningin hefði verið hrein tilviljun. Glitnir hefði keypt hlut hennar í Tryggingarmiðstöðinni í september árið 2007 og þá hafi verið gerður söluréttarsamningur um hlutinn. Hann hafi gilt í eitt ár og etir því sem fréttastofa kemst næst átti hún rétt á því að selja helming hlutar síns á genginu 32,18 og hinn helminginn á gengi dagsins. Hún kaus að selja þennan dag þrátt fyrir að gengið á bréfunum hefði aldrei verið jafn lágt, eða 15,9.

Fjármálaeftirlitið rannsakaði söluna í nokkurn tíma og sendi það svo til sérstaks saksóknara í sumar. Rannsóknin mun vera á byrjunarstigi. Guðbjörg hefur verið í hópi auðugustu Íslendinga undanfarin ár. Hún er aðaleigandi Ísfélagsins í Vestmannaeyjum og er stærsti hluthafinn í Þórsmörk, útgáfufélagi Morgunblaðsins.

Frá þessu var fyrst greint á pressan.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×