Innlent

Skref Norðmanna gæti haft jákvæð áhrif fyrir Íslendinga

Heimsókn olíumálaráðherra Noregs til Jan Mayen í dag er talin pólitísk yfirlýsing um að Norðmenn stefni á olíuleit á norska hluta Jan Mayen-hryggjarins. Málið gæti haft mikla efnahagsþýðingu fyrir Ísland í framtíðinni enda eiga Íslendingar 25 prósent nýtingarrétt á olíunni Noregsmegin miðlínunnar.

Olíuleit á Jan Mayen hryggnum er mjög umdeild í Noregi. Olíumálaráðherrann Terje Riis Johansen er hins vegar talinn senda skýr skilaboð um hvert ríkisstjórnin vilji stefna með heimsókn til Jan Mayen í dag.

Þórarinn Sveinn Arnarson, verkefnistjóri olíuleitar hjá Orkustofnun, telur heimsóknina auka líkur á að Norðmenn hefji þarna olíuleit. Heimsóknin sé pólitísk yfirlýsing.

Fyrir íslenska hagsmuni gæti þetta haft mikla þýðingu því samkvæmt 28 ára gömlu samkomulagi þjóðanna eiga Íslendingar 25 prósent rétt á leyfum á stórum hluta þess svæðis sem er innan norsku lögsögunnar, og öfugt, en réttur Íslands nær þó yfir mun stærra svæði Noregsmegin.

Áform Norðmanna þýða væntanlega auknar rannsóknir á næstu árum sem gagnast munu Íslendingum við mat á Drekasvæðinu. Þá gætu Íslendingar einnig hagnast á auknum áhuga sem heimsókn ráðherrans er talin geta vakið á svæðinu enda er jarðfræðin sú sama beggja vegna miðlínunnar. "Ef til dæmis fyndist olía Noregsmegin myndi það að sjálfsögðu hafa gífurlega jákvæð áhrif á okkar svæði," segir Þórarinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×