Erlent

Standa með Stalín

Í Gori, fæðingarbæ Stalíns í Georgíu, komu aðdáendur hans saman í tilefni dagsins.
Í Gori, fæðingarbæ Stalíns í Georgíu, komu aðdáendur hans saman í tilefni dagsins.

Aðdáendur Jósefs Stalín, bæði í Rússlandi og Georgíu, minntust þess í gær að 130 ár eru liðin frá fæðingu þessa alræmda einræðisherra, sem stjórnaði Sovétríkjunum í tæpa þrjá áratugi.

Vinsældir Stalíns hafa aukist í Rússlandi síðustu árin, eftir að stjórnvöld tóku að sér að verja ímynd hans.

Meðal annars hefur Vladimír Pútín forsætisráðherra lagt áherslu á að Stalín eigi virðingu skilda fyrir að hrinda á bak aftur innrás Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni ásamt því að hafa iðnvætt Sovétríkin. Skipulögð útrýming andstæðinga Stalíns og kúgun almennings sem varð milljónum íbúa Sovétríkjanna að bana eigi ekki að skyggja á þessi afrek.

Kommúnistaflokkur Rússlands, sem enn lifir góðu lífi sem stærsti flokkur stjórnarandstöðunnar, hefur einnig lagt mikla áherslu á að viðhalda fegraðri ímynd Stalíns og bað gagnrýnendur hans sérstaklega um að hafa hægt um sig í gær.

„Okkur er mikið í mun að öll umræða um mistök Stalíntímans hljóðni í dag, svo fólk geti hugleitt persónuleika Stalíns sem skapara, hugsuðar og föðurlandsvinar," sagði Ivan Melnikov, einn forystumanna Kommúnistaflokksins, í ávarpi á vefsíðu flokksins.

- gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×