Viðskipti innlent

Síminn tók verðauglýsingu úr umferð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Síminn ákvað í gær að taka úr umferð útvarpsauglýsingu sem byggir á reiknivél Póst og fjarskiptastofnunar. Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis sagði frá því á miðvikudaginn að ódýrast væri að vera í áskrift hjá Símanum og byggði fréttina á reiknivél Póst og fjarskiptastofnunar. Síminn auglýsti svo í útvarpi og byggði auglýsinguna á sömu tölum og komu fram í fréttinni.

Póst- og fjarskiptastofnun mótmælti þessu og sagði að ekki hafi verið birt úttekt um verðsamanburð milli fjarskiptafyrirtækjanna nema þann mánaðarlega verðsamanburð sem birtur er á vef stofnunarinnar. Sá verðsamanburður byggðist eingöngu á verðskrám fyrirtækjanna. Fréttir og auglýsingar um slíka úttekt væru rangar og ekki á ábyrgð PFS. Hið rétta væri að unnið væri að gerð og birtingu reiknivélar fyrir neytendur.

Upplýsingafulltrúi Símans segir að Póst og fjarskiptastofnun hafi farið fram á að í auglýsingum frá Símanum yrði ekki vísað í reiknivél stofnunarinnar og því hafi auglýsingin verið tekin úr umferð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×