Viðskipti innlent

Ekkert lát á samdrætti í kortaveltu Íslendinga

Ekkert lát er á samdrætti í kortaveltu og er það til marks um að einkaneysla muni reynast mun minni á yfirstandandi ársfjórðungi en raunin var í fyrra.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans um greiðslumiðlun var kreditkortavelta alls 22,1 milljarðar kr. í febrúar síðastliðnum. Að krónutölu er um ríflega 13% samdrátt að ræða á milli ára, en að raungildi nemur samdrátturinn hins vegar tæplega 30% frá febrúar 2008.

Snarpastur er samdrátturinn í erlendri kortaveltu, en að raunvirði dróst kreditkortanotkun erlendis saman um ríflega helming í síðasta mánuði frá sama tíma í fyrra. Innlend kreditkortanotkun skrapp saman um tæplega fjórðung í febrúar miðað við sama mánuð 2008.

Innlend debitkortanotkun hefur, líkt og kreditkortanotkunin, minnkað verulega í kjölfar bankahrunsins í fyrrahaust. Raunbreytingar á framangreindri greiðslukortanotkun gefa góða mynd af þróun einkaneyslu, og sé rýnt í þá þróun má gera ráð fyrir að einkaneysla á fyrstu tveimur mánuðum ársins hafi verið allt að fjórðungi minni en á sama tíma í fyrra. Er það álíka mikill samdráttur á milli ára og sjá mátti í nýlegum tölum Hagstofu yfir landsframleiðslu á 4. fjórðungi nýliðins árs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×