Viðskipti innlent

Hagnaður Marel nam 165 milljónum á 3. ársfjórðungi

Hagnaður Marel eftir skatta var 0,9 milljónir evra eða 165 milljónir kr. á þriðja ársfjórðungi ársins. Til samanburðar var hagnaðurinn fimmfalt hærri á sama tímabili í fyrra eða 4,5 milljónir evra.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að tekjur af kjarnastarfsemi námu 111,9 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi, sem er 4,4% hækkun miðað við síðasta ársfjórðung

Heildartekjur á þriðja ársfjórðungi 2009 námu 133,7 milljónum evra á móti 170,6 milljónir evra á sama tímabili í fyrra.

„Við erum ánægð með rekstrarafkomu ársfjórðungsins. Við erum áfram mjög meðvituð um kostnaðarhliðina í rekstrinum í ljósi þess hve batinn er hægur. Það er stöðugleiki í fjölda pantana af kjarnastarfsemi á þriðja ársfjórðungi eftir vöxt á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins. Kostnaðaraðhaldið hefur gert okkur kleift að auka framlegð og rekstrarhagnað," segir Theo Hoen forstjóri Marels í tilkynningunni.

„ Eftir þær aðhaldsaðgerðir sem við höfum ráðist í á síðastliðnu ári er kostnaðargrunnur fyrirtækisins nú töluvert lægri en hann var áður.

Nú einbeitum við okkur að því að ná fram þeim samlegðaráhrifum sem stefnt var að við sameiningu Marel og Stork Food Systems. Við hlökkum til að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á framúrskarandi ný kerfi sem sameina þá háþróuðu tækni sem fyrirtækin geta nú boðið upp á sem eitt félag.

Við erum stolt af því að Columbia Wanger Asset Management, dótturfélag Bank of America, hefur eignast hlut í félaginu. Hluthafar hafa stutt vel við stefnu okkar á undanförnum árum og það er hvetjandi fyrir okkur að alþjóðlegir fjárfestar skuli hafa trú á félaginu og framtíð greinarinnar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×