Viðskipti innlent

Vilhjálmur Bjarnason: Grein Helga uppskrift af því hvernig á að snuða aðra

Vilhjálmur Bjarnason.
Vilhjálmur Bjarnason.

„Greinin hans Helga [Sigurðssonar, fyrrum yfirlögfræðings Kaupþings] er uppskrift af því hvernig á að snuða aðra hluthafa og gefa ranga mynd af stöðu bankans," segir Vilhjálmur Bjarnason, aðjúnkt við Háskóla Íslands, um varnargrein sem Helgi Sigurðsson fyrrum yfirlögfræðingur Kaupþings skrifaði í Fréttablaðið í dag.

Í greininni útskýrir hann rangfærslur varðandi niðurfellingar persónulegra ábyrgða starfsmanna bankans á milljörðum sem þeim var lánað til þess að kaupa hlutafé.

Helgi útskýrði í greininni í dag að ástæðan fyrir niðurfellingu ábyrgðanna hefði verið sú að bankinn beitti sölubanni á hluti starfsmannanna. Sjálfir þurftu þeir skriflegt samþykki bankans til þess að selja hlutina.

Stjórn Kaupþings þótti það óheppilegt að starfsmenn myndu leysa út sinn hlut í byrjun 2008 og því var starfsmönnum neitað um að selja hlutina.

Þá kemur fram í greininni að eignarhlutur starfsmanna hafi verið níu prósent eða andvirði rúmra tíu milljarða.

Vilhjálmur veltir því fyrir sér hverskonar hlutafé það sé sem þurfi að sæta sölubanni. „Það er ekkert hlutafé," segir Vilhjálmur sem telur gjörninginn mismuna hluthöfum. Viðskiptavinir töpuðu einfaldlega á viðskiptunum á meðan starfsmenn sluppu með skrekkinn.

Þá segir hann mögulegt að þarna sé verið að gefa upp ranga mynd af stöðu bankans - það geti heyrt undir markaðsmisnotkun sem er ólögleg.

Hann segir að einn þriðji af útlánum bankanna samanlagt hafi verið ofurseld sömu aðferð og Helgi greinir frá í Fréttablaðinu dag; það eru 1700 milljarðir af 5400 milljörðum samanlagt. Til hliðsjónar þessu þá er áætlað að Íslendingar þurfi að greiða rúma 700 milljarða vegna Icesave.

Aðspurður hvort sölubanni hafi oft verið beitt vegna hlutafés svarar Vilhjálmur: „Ég þekki það ekki. Það er ekki algengt, í það minnsta fáheyrt að slíkt sé gert."


Tengdar fréttir

Helgi Sigurðsson hættur hjá Nýja Kaupþingi

Helgi Sigurðsson, yfirlögfræðingur Nýja Kaupþings, hefur sagt starfi sínu lausi frá og með deginum í dag. Ákvörðunin kemur í kjölfar umfjöllunar um aðkomu Helga að kaupréttarsamningum starfsmanna gamla Kaupþings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×