Viðskipti innlent

Hagsmunasamtök heimilanna boða nýtt greiðsluverkfall

Hagsmunasamtök heimilanna boða til greiðsluverkfalls 15. nóvember til 10. desember og hvetja fólk til að greiða ekki af lánum á þeim tíma og jafnfram að taka peninga sína út úr bönkunum.

Í ályktun sem samtökin hafa sent frá sér segir að fyrsta greiðsluverkfall samtakanna fékk góðar undirtektir hjá almenningi og stefnt er að því að beita þessu vopni með vaxandi þunga þangað til gengið verður til samningaviðræðna við samtökin og tekið mið af kröfum þeirra.

„Meðan ríkisstjórnin og bankarnir reyna að telja fólki trú um að verið sé að létta byrðum að heimilunum versnar ástandið stöðugt. Boðuð greiðslujöfnun mun stórauka greiðslubyrði af lánum þegar til lengdar lætur og staðfesta eignaupptöku fjármálastofnana hjá heimilum landsmanna," segir í ályktuninni.

„Þrátt fyrir háttstemmdar yfirlýsingar stjórnvalda um að hjálpa þeim sem verst eru settir eru þeir sviftir öllum úrræðum sem eru í vanskilum, þó þeir séu óvéfengjanlega verst settir. Þannig er tugþúsundum stillt upp við vegg og knúin í varanleg greiðsluþrot. Á sama tíma ætla bankarnir sér að nota það svigrúm sem er til niðurfærslu lána til að hygla sínum innherjum og vildarvinum. Íslenskur almenningur hefur fengið nóg af óréttlætinu."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×