Viðskipti innlent

Icelandic Glacial semur við AirTran í Bandaríkjunum

Icelandic Water Holdings, sem framleiðir Icelandic Glacial vatnið, og bandaríska flugfélagið AirTran Airways hafa gert með sér samning þess efnis að Icelandic Glacial vatnið verði á boðstólum í öllum vélum félagsins.

Í tilkynningu segir að samningurinn taki strax gildi og mun AirTran bjóða Icelandic Glacial vatnið til sölu um borð í öllum vélum sínum, en félagið flýgur yfir 700 flug á degi hverjum til 63 flugvalla í Bandaríkjunum, Mexíkó og Puertó Ríkó

„Við erum virkilega ánægð með að vera í samstarfi við framsækið fyrirtæki á borð við AirTran Airways", segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður og annar af stofendum Icelandic Water Holdings. „Við erum að leggja áherslu á að gera vatnið sýnilegra í Bandaríkjunum og þessi samningur gerir okkur kleift að komast í beina snertingu við viðskiptavini".

Samningurinn er sá þriðji í röðinni sem Icelandic Water Holdings gerir við flugfélag um sölu vatnsins en áður hefur fyrirtækið gert samninga við Icelandair og þotuleiguna NetJets Europe

Icelandic Water Holdings tók nýja verksmiðju í gagnið í lok september í fyrra. Verksmiðjan, sem staðsett er í landi Hlíðarenda í Ölfusi, er um 6.700 fermetrar að stærð og annar átöppun um 100 milljón lítra á ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×