Viðskipti innlent

Greining: Ársverðbólgan lækkar í 7,7% í desember

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,6% í desember. Ef spáin gengur eftir lækkar verðbólgan úr 8,6% í 7,7%.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að þrátt fyrir að gengi krónu hafi verið nokkuð stöðugt undanfarna mánuði eru enn að koma fram í verðlagi áhrif gengishrunsins frá miðju ári 2008, sér í lagi í þeim vöruliðum sem búa við tiltölulega hægan veltuhraða eða árstíðabundið vöruframboð.

Þannig gerir greiningin ráð fyrir að liðir á borð við húsgögn, heimilisbúnað, fatnað og rafeindatæki til heimilisnota hækki um eitt til tvö prósentustig á milli mánaða, en töluverð verðhækkun hefur verið að koma fram á slíkum innfluttum vörum á síðustu mánuðum.

Margt hefur orðið til að tefja áhrif falls krónu undanfarin misseri á verðlag varanlegra og hálfvaranlegra neysluvara. Snarminnkandi eftirspurn eftir slíkum vörum hefur hægt mikið á veltuhraða þeirra, auk þess sem gera má ráð fyrir að söluaðilar hafi í lengstu lög vænst þess að krónan styrktist að nýju og beðið með að hleypa hærra innkaupsverði að fullu yfir í útsöluverð.

„Teljum við að vegna ofangreindra þátta sé enn eftir nokkur verðhækkun á ýmsum vöruflokkum vegna gengisfalls krónu," segir í Morgunkorninu.

Fram kemur að á fyrsta fjórðungi næsta árs má búast við töluverðri hækkun VNV. Þar vegur þungt hækkun óbeinna skatta í janúar og mars, sem greingin telur að muni í heild hækka vísitöluna um 1,4% á fjórðungnum.

„Við bætist svo að mati okkar frekari hækkun á þeim liðum sem fjallað er um hér að ofan, sem og gjaldskrárhækkanir sem jafnan má eiga von á um áramót. Við gerum ráð fyrir að útsöluáhrif verði svipuð á fjórðungnum og verið hefur undanfarin ár," segir í Morgunkorninu.

„Þannig spáum við að föt og skór muni lækka um 8% að jafnaði í janúar en hækka að nýju um ríflega 7% í febrúar og svo enn frekar í mars. Alls teljum við að VNV muni hækka um 2,8% fram til marsloka miðað við síðustu mælingu í nóvember. Verðbólgan mun því líklega hækka á þessu tímabili og ná hámarki í 9,5% í mars á næsta ári ef spá okkar gengur eftir."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×