Viðskipti innlent

Viljayfirlýsing um byggingu einkasjúkrahúss í Mosfellsbæ

Mosfellsbær, PrimaCare ehf. og Ístak hf. munu í dag rita undir viljayfirlýsingu um byggingu einkasjúkrahúss og hótels í Mosfellsbæ sem mun sérhæfa sig í mjaðmaliða- og hnjáaðgerðum fyrir útlendinga.

Í tilkynningu segir að um sé að ræða allt að 20-30 þúsund fermetra byggingar og munu skapast 600-1000 störf í bæjarfélaginu. Gert er ráð fyrir að verkefnið kosti 13-20 milljarða króna en fjármögnun þess er í höndum svissnesks fjármögnunarfyrirtækis, Oppenheimer Investments AG. Samkvæmt áætlunum fyrirtækisins er gert ráð fyrir að fyrstu sjúklingarnir verði komi til aðgerða í árslok 2011.



„Það þarf ekki að fjölyrða um það hversu mikil lyftistöng þetta verkefni verður fyrir samfélagið hér í Mosfellsbæ og nágrenni. Ekki einungis munu skapast hér 600-1000 störf á einu bretti heldur mun verkefnið hafa gífurleg áhrif vegna afleiddrar þjónustu sem af því skapast, jafnt vegna starfsfólks á sjúkrahúsinu og þeim sjúklingum og gestum sem þangað koma," segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. "Við gerum okkur til að mynda vonir um að hluti starfsfólksins kjósi að setjast að hér í okkar góða bæjarfélagi með öllum þeim kostum sem því fylgja."



Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri PrimaCare segist afskaplega ánægður með að sjúkrahúsinu hafi verið valinn staður í Mosfellsbæ. „Einstakt umhverfið og metnaðarfull stefna Mosfellsbæjar í umhverfismálum var meðal þess sem átti mikinn þátt í að við völdum Mosfellsbæ enda fellur umhverfisstefna bæjarins mjög vel að okkar markmiðum. Auk þess hefur Mosfellsbær sett stefnu á að vera leiðandi á sviði heilsueflingar, endurhæfingar og lýðheilsu sem er góður jarðvegur fyrir verkefni okkar," segir Gunnar.



„Við höfum átt mjög gott samstarf við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ sem og Ístak og önnur fyrirtæki í bænum sem munu koma að uppbyggingu sjúkrahússins. Við höfum fundið fyrir breiðri samstöðu innan sveitarfélagsins um þetta verkefni og miklum áhuga," segir Gunnar.



Unnið er að stofnun Heilsufélags Mosfellsbæjar sem hafa mun það að markmiði að byggja upp þjónustu á sviði heilbrigðismála í bæjarfélaginu. Stefnt er að því að félagið fjárfesti í verkefni PrimaCare og hefur Íslandsbanki veitt ráðgjöf um stofnun þess.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×