Viðskipti innlent

Bandarískir verðbréfsalar meðal hæstu skattgreiðenda í Reykjavík

Nafn Fluke Finance Co ehf. vekur athygli á lista Skattstjórans í Reykjavík yfir 10 stærstu greiðendur opinberra gjalda lögaðila í borginni. Fluke er verðbréfamiðlun í eigu bandarískra manna og er dótturfélag Fluke International Corp. Opinber gjöld Fluke nema tæpum 530 milljónum kr. og er þar um fjármagnstekjuskatt að ræða.

Samkvæmt opinberum upplýsingum var Fluke Finance stofnað í árslok árið 2006 og raunar er það síðasti ársreikningur sem til er um starfsemi þess þar sem ársreikningum fyrir 2007 og 2008 hefur ekki verið skilað inn. Hlutafé við stofnun þess nam 500.000 kr.

Félagið var stofnað á vegum Deloitte í nóvember 2006 og hét þá Rauðagil ehf. Mánuði síðar var það komið í eigu Bandaríkjamannanna og nafni þess breytt í Fluke Finance.

Í maí árið 2007 er hlutafé Fluke síðan aukið í 14,85 milljónir evra, rúmlega 2,7 milljarða kr. á núvirði og á þeim tíma er Fluke International orðið eini eigandi Fluke Finance. Áður höfðu þeir Frank Talbot McFaden og James Howard Ditkoff skipað stjórn félagsins.

Samkvæmt upplýsingum úr samþykktum fyrir Fluke Finance er tilgangur félagsins kaup, sala og eignarhald á verðbréfum, kaup, sala og rekstur á fasteignum og lausafé ásamt lánastarfsemi sem tengist rekstrinum.

Miðað við að hin opinberu gjöld Fluke Finance séu fjármagnstekjuskattur má áætla að hagnaður félagsins af fjármagnstekjum hafi numið vel yfir 5 milljörðum kr.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×