Innlent

Fjörutíu íbúðir boðnar til sölu á nauðungaruppboðum

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Um fjörutíu íbúðir einstaklinga verða boðnar til sölu á nauðungaruppboðum á næstu dögum á suðvesturhorni landsins á meðan frumvarp um framlengdan frest á nauðungarsölum liggur óafgreitt á þingi.

Lög sem heimiluðu að nauðungarsölum yrði frestað til að koma í veg fyrir að fólk missti heimili sín í uppnáminu sem hér varð eftir hrun bankanna runnu úr gildi nú um helgina. Í Morgunblaðinu kom fram nýverið að nauðungarsölu á 783 fasteignum hafi verið frestað hjá sýslumannsembættunum í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi og Keflavík. Til stendur að framlengja þennan frest til 31. janúar en þar sem ekki er búið að afgreiða frumvarp dómsmálaráðherra þess efnis á Alþingi, geta nauðungarsölur nú farið fram.

Fréttastofa hafði samband við sýslumannsembættin í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi, Keflavík og á Akranesi til að kanna hversu margar fasteignir einstaklinga gætu lent í þessu gati sem nú hefur myndast. Samtals eru nauðungaruppboð á fjörutíu og einni fasteign einstaklinga fyrirhuguð hjá þessum embættum í þessari viku og næstu. Langflest í Reykjavík, þar verða 39 íbúðir einstaklinga boðnar upp ef frumvarpið verður ekki orðið að lögum á næstu tveimur vikum. Þá verða tvær íbúðir boðnar upp í næstu viku í Kópavogi.

Hjá flestum embættum sem fréttastofa leitaði upplýsinga hjá, hafa menn dagsett nauðungaruppboð í lok mánaðarins, vitandi að til stendur að framlengja frestinn - og því bíða menn átekta eftir því að frumvarpið verði að lögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×