Viðskipti innlent

Nýskráningar ökutækja enn í sögulegu lágmarki

Þegar skoðaður er fjöldi nýskráninga ökutækja fyrstu 107 daga ársins 2009 og sá fjöldi borin saman við eldri nýskráningar kemur í ljós að enn er fjöldi nýskráninga á árinu 2009 í sögulegu lágmarki.

Þetta kemur fram í fréttabréfi Umferðarstofu. Þar segir að ljóst sé að nýskráningar ökutækja á tímabilinu eru samtals 952 en á sama tímabili í fyrra voru 7121 ökutæki nýskráð hér á landi. Þetta er 86,6% fækkun nýskráninga milli ára.

Umferðarstofa hefur tekið saman yfirlit yfir nýskráningar ökutækja og eigendaskipti á tímabilinu frá 1. janúar 2009 til 17. apríl 2009. Hafa skal í huga að hér er um að ræða nýskráningu og eigendaskipti allra skráningarskyldra ökutækja, ekki bara bifreiða.

Ekki hefur dregið jafn mikið úr fjölda eigendaskipta á ökutækjum á árinu líkt og fjölda nýskráninga. Á fyrstu 107 dögum ársins voru skráð 20.797 eigendaskipti en árið 2008 voru þau 27.553 eftir jafn marga skráningardaga. Hlutfallsleg fækkun eigendaskipta nemur því 24,5% á því tímabili.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×