Viðskipti innlent

Millibankamarkaður með krónur sýnir lífsmark

Millibankamarkaður með krónur hefur sýnt lífsmark í október og nóvember samkvæmt hagtölum Seðlabankans. Frá maí hafði markaðurinn hinsvegar alveg legið niðri.

Viðskiptin í október námu 30 milljörðum kr. og í nóvember voru þau 27 milljarðar kr. Þar áður voru viðskipti í maí upp á 13 milljarða kr. en engin viðskipti voru skráð á markaðinum yfir sumarmánuðina og raunar einnig í aprílmánuði.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum hafa lítil viðskipti hafa verið á millibankamarkaði með krónur á árinu fyrst og fremst vegna þess að krónustaða fjármálafyrirtækja var ágæt. Með útgáfu innstæðubréfa minnkaði hún og velta síðustu 2 mánuði er tilkomin vegna innistæðubréfanna.

Velta erlendis á sams konar mörkuðum datt niður þegar kreppti að á mörkuðum en þetta eru ótryggð lán sem bankar veita sín á milli til allt að 1 árs. Veltan hér á landi hefur alltaf verið fyrst og fremst á stysta endanum, það er yfir nótt.

Veltan í ár er þó ekki nema svipur hjá sjón miðað við síðustu árin tvö fyrir hrunið í fyrra. Janúar er þó undantekning en þá nam veltan 122 milljörðum kr. Hinsvegar nam mesta veltan í einum mánuði árið 2007 rúmum 174 milljörðum kr. og sú minnsta 56 milljörðum kr. Í fyrra nam mesta veltan rúmlega 250 milljörðum kr. í einum mánuði, það er júlí, en hrapaði svo niður í 1,5 milljarða kr. í október í fyrra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×