Viðskipti innlent

Nafni Rekstrarfélags Kaupþings breytt í Stefnir hf.

Á hluthafafundi Rekstrarfélags Kaupþings banka hf., sem haldinn var í dag, var tekin ákvörðun um að breyta nafni félagsins í Stefnir hf.

Í tilkynningu segir að Stefnir hf. rekur fjölbreytt úrval sjóða um sameiginlega fjárfestingu, þ.m.t. fagfjárfestasjóðinn KB ABS 12, sem hefur fengið fjármálagerninga tekna til viðskipta í kauphöllinni.

Í frétt frá Stefni um nafnabreytinguna segir að félagið sé sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki og um starfsemi þess gilda skýrar reglur um aðskilnað reksturs frá rekstri móðurfélags. Með nýju nafni vilja stjórnendur Arion banka og Stefnis undirstrika sjálfstæði félagsins og þann aðskilnað sem verið hefur í reynd á milli dótturfélags og móðurfélags.

"Stefnir er hljómfagurt orð sem skírskotar til ýmiss konar jákvæðra tákna og eiginleika. Í íslenskri þjóðtrú kemur orðið „stefnir" fyrir sem heiti á náttúrusteini sem notaður var sem verndargripur. Orðið tengist að líkindum stafni skips. Það ber með sér stefnufestu og marksækni og í nafninu býr skírskotun til brautryðjanda, forystu og vinnusemi. Undir þessum merkjum vill Stefnir starfa. Nafnabreytingin verður kynnt viðskiptavinum á næstu dögum," segir í fréttinni.

Stefnir er stærsta sérhæfða sjóðastýringarfyrirtæki hér á landi með 13 starfsmenn. Virkar eignir í stýringu eru um 250 milljarðar króna. Viðskiptavinir Stefnis eru 20.000 fyrirtæki, stofnanir, lífeyrissjóðir og einstaklingar. Arion banki er söluaðili sjóða Stefnis.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×