Viðskipti innlent

AGS: Fullnýta þarf lánalínur frá Norðurlöndunum

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) metur það svo að Íslandi þurfi að draga að fullu á lánalínur Norðurlandanna til að efnahagsáætlunin sjóðsins og Íslands gangi eftir.

Stefnt er að því að önnur endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands og AGS verði lögð fyrir framkvæmdastjórn sjóðsins um miðjan janúar. Mark Flanagan, yfirmaður sendinefndar sjóðsins segir að flest lykilatriði áætlunarinnar hafi gengið eftir og því eigi önnur endurskoðun að geta farið fram á tilsettum tíma.

Áhersluatriðin við aðra endurskoðun verða fjárlög ársins 2010, mat á skuldaþoli hins opinbera og áætlun í tengslum við það, auk þess sem skref verða stigin í að ljúka endurreisn bankakerfisins og styrkja regluverk fjármálakerfisins. Að því gefnu að fjármögnun áætlunarinnar sé tryggð mun önnur endurskoðun fara fram um miðjan janúar.

Flanagan segir að tryggja þurfi lán Norðurlandanna fyrir tilsettan tíma til að endurskoðunin dragist ekki. Óvíst er því hvaða áhrif það hefur ef Icesave málið verður enn í lausu lofti á Alþingi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×