Viðskipti innlent

Stjórn Kaupþings harmar lögbannsbeiðni bankastjóra

Stjórn Kaupþings, undir formennsku Huldu Dóru Styrmisdóttur, sendi starfsmönnum bankans tölvupóst í dag þar sem kom fram að stjórnin harmi þann skaða sem hlaust af lögbannskröfu Finns Sveinbjörnssonar, bankastjóra Kaupþings. Þá er sérstaklega tekið fram í póstinum að stjórnin hafi ekki átt þátt í ákvörðun bankastjórans og telur kröfuna ekki þjóna hagsmunum bankans.

Frá þessu var skýrt á pressan.is en Vísir hefur tölvupóstinn undir höndum.

Í póstinum er áréttað að varlega þurfi að fara með trúnaðargögn sem varða viðskiptavini bankans. Þá segir að stjórnin telji engu að síður nauðsynlegt að fá allt upp á borð varðandi bankahrunið. Leiða þurfi í ljós upplýsingar um orsakir og að helstu gerendur verði kallaðir til ábyrgðar samkvæmt lögum.

Niðurlag póstins er harðort og er beint gegn bankastjóranum Finni. Þar segir: „Stjórn Nýja Kaupþings banka átti ekki þátt í ákvörðun bankastjóra sl. laugardag um lögbann á fréttaflutning RÚV af efni sem er öllum aðgengilegt á netinu og telur það ekki hafa þjónað hagsmunum bankans eða því yfirlýsta markmiði að standa vörð um trúnaðarupplýsingar. Stjórnin harmar þann skaða sem af málinu hefur

hlotist fyrir orðspor bankans."

Pósturinn í heild sinni:

,,Nýja Kaupþing varð til eftir hrun íslenska bankakerfisins þegar traust á fjármálastofnunum hafði beðið skipbrot. Stjórn hins nýja banka hefur lagt kapp á að byggja upp traust á starfsemi bankans. Ein meginstoð bankastarfsemi er að viðskiptavinir geti treyst því að upplýsingar sem þá varða séu ekki aðgengilegar óviðkomandi.

Stjórn Nýja Kaupþings lýsir því þungum áhyggjum af því að upplýsingar sem varða núverandi viðskiptavini bankans og falla undir lög um bankaleynd séu öllum aðgengilegar. Jafnframt er vakin er athygli á því að trúnaðarupplýsingar sem til urðu í starfsemi gamla Kaupþings eru í vörslu ýmissa aðila og bent á mikilvægi þess að allir sem búa yfir slíkum gögnum yfirfari meðferð sína á trúnaðarupplýsingum. Rík áhersla er lögð á grandvara meðferð trúnaðarupplýsinga hjá Nýja Kaupþingi.

Stjórnin telur nauðsynlegt að fá allt upp á borðið sem varðaði hrun bankakerfisins. Hún treystir því að yfirstandandi rannsóknir muni leiða í ljós upplýsingar um orsakir og að helstu gerendur verði kallaðir til ábyrgðar samkvæmt réttum lögum.

Stjórn Nýja Kaupþings banka átti ekki þátt í ákvörðun bankastjóra sl. laugardag um lögbann á fréttaflutning RÚV af efni sem er öllum aðgengilegt á netinu og telur það ekki hafa þjónað hagsmunum bankans eða því yfirlýsta markmiði að standa vörð um trúnaðarupplýsingar. Stjórnin harmar þann skaða sem af málinu hefur

hlotist fyrir orðspor bankans."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×