Viðskipti innlent

Gjalddagar krónubréfa nema 26 milljörðum í mars

Tveir gjalddagar krónubréfa eru í mars, samtals að upphæð 26 milljarða kr. Sá fyrri er 21. mars upp á 3 milljarða kr. og sá seinni er 23. mars upp á 23 milljarða kr.

Fjallað er um málið í daglegu fréttabréfi hagfræðideildar Landsbankans. Þar kemur fram að útistandandi krónubréf í dag nema 150 milljörðum kr.

Hvað varðar gjalddagana í mars segir að vaxtagreiðslur af þeim muni nema um 5 milljörðum kr. og fer það fé að mestu strax úr landinu í formi gjaldeyris. Hagfræðideildin telur að þetta stuðli að veikingu á gengi krónunnar þessa dagana en gengið féll um 2,6% í gær. Evran fór í yfir 150 kr. við þessa veikingu en það er lægst gengi gangvart evru undanfarin mánuð.

Gjaldeyrishöftin gera það að verkum að höfuðstóll krónubréfanna er áfram lokaður inni á Íslandi og verða handhafar bréfanna því að breyta upphæðunum í ríkisbréf. Hagfræðideildin telur að stutt bréf verði fyrir valinu.

Þá gerir hagfræðideildin ekki ráð fyrir að útgáfa á krónubréfum fari í gang að nýju.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×